Gamli Landsbankinn hefur nú greitt breskum sveitastjórnum og bæjarfélögum um 140 milljarða króna. Breskar bæjarstjórnir og sveitarfélög fengu nýlega þriðju greiðsluna frá gamla Landsbankanum að upphæð 25 milljónir sterlingspunda, um 4,9 milljarða íslenskra króna.

Morgunblaðið fjallar um málið í dag og vísar í frétt vefmiðilsins Public Finance. Hér er átt við hina margfrægu Icesave reikninga en fram kemur að bankinn sé nú búinn að greiða um helming þeirra 416 milljóna punda sem sveitarfélögin áttu á reikningum við hrun hans í október 2008.

Haft er eftir Merrick Cockell, stjórnarformanni samtakanna, að þetta sé árangur baráttu þeirra fyrir því að sveitarstjórnir séu flokkaðar sem forgangskröfuhafar og hafi leitt til þess að þær séu meðal þeirra fyrstu sem fái greiðslur frá slitastjórninni.

Í frétt Morgunblaðsins er rifjað upp að breskar sveitarstjórnir áttu samtals um 1 milljarð punda á reikningum hjá íslensku bönkunum, eða tæplega 200 milljarða íslenskra króna. Um 700 milljónir punda, tæplega 140 milljarðar íslenskra króna, hafa verið greiddar til baka og segir Cockell að áfram verði unnið að því að endurheimta þær 300 milljónir punda sem út af standi, eða sem nemur tæplega 60 milljörðum íslenskra króna.