Tim Ward, málflutningsmaður Íslands í Icesave málinu, segist ekki hafa verið í vafa um það hvort hann ætti að taka málið að sér eða ekki í ljósi þess að  hann sjálfur er Breti.

„Ég er fyrst og fremst lögfræðingur og þetta er það sem ég geri,“ sagði Ward við blaðamanna Viðskiptablaðsins á blaðamannafundi fyrir stundu – og brosti í kjölfarið.

Málflutningsteymið hélt blaðamannafund í Þjóðmenningarhúsinu seinni partinn í dag í kjölfar þess að EFTA-dómstóllinn sýknaði í morgun íslenska ríkið af öllum ákærum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) í Icesave-málinu. Þar rakti Ward í stuttu máli niðurstöðu dómsins. Hann sagðist telja að dómurinn hefði áhrif á innstæðutryggingakerfið í Evrópusambandsríkjunum en það ætti eftir að koma nánar í ljós.

Spurður að því hvort eitthvað hefði komið á óvart í dómnum sagði hann svo ekki vera, nema hvað dómurinn hefði verið afdráttarlaus. Undir þetta tóku lögmennirnir Reimar Pétursson og Jóhannes Karl Sveinsson, sem báðir áttu sæti í málflutningsteyminu. Þeir sögðu dóminn vera bæði skýran og afdráttarlausan. Þá sagði Reimar að hann væri að mestu í samræmi við málflutning íslenska málflutningsteymisins fyrir dómnum.

Málflutningsteymið hafði verið beðið um að starfa áfram ef Ísland hefði tapað málinu en nú má segja að störfum þess sé að mestu lokið. Kostnaður vegna málaferlanna liggur enn ekki fyrir en hann verður greiddur af EFTA.