Svo virðist sem Framsóknaflokkurinn hafi eftir úrslit kosninganna í gær endurheimt sína fornu frægð. Flokkurinn bætti við sig tæpum tíu prósentustigum í fylgi auk þess að bæta við sig tíu þingmönnum.

Framsóknarflokkurinn fékk í gær 24,4% fylgi. Það er mesta fylgi sem flokkurinn hefur fengið í 34 ár, eða frá árinu 1979 þegar flokkurinn fékk 24,9% fylgi. Þá þarf að fara allt aftur til ársins 1963, eða 50 ár aftur í tímann, til að fá jafn mikinn þingmannafjölda og Framsóknarflokkurinn er nú með, eða 19 þingmenn.

Eins og sjá má á myndinni hér að neðan fór fylgi Framsóknarflokksins hæst í 23,3% árið 1995 á sl. 30 árum. Fram að því hafði flokkurinn fengið um 19% fylgi í kosningum. Eftir kosningarnar 1995 settist flokkurinn, undir forystu Halldórs Ásgrímssonar, í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokk og átti þá eftir að sitja í ríkisstjórn næstu 12 árin. Fylgi flokksins dalaði þó jafnt og þétt í þeim kosningum sem á eftir komu, og náði lágmarki í kosningunum 2007 þegar flokkurinn fékk aðeins 11,7% fylgi.

Í kosningunum í apríl 2009 náði flokkurinn tæplega 15% undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem þá var nýkjörinn formaður.

Fylgi Framsóknarflokksins sl. 30 ár.
Fylgi Framsóknarflokksins sl. 30 ár.
© vb.is (vb.is)

Fylgi Framsóknarflokksins í könnunum hefur verið rússíbanaferð. Hér að neðan má sjá fylgi Framsóknarflokksins í könnunum Þjóðarpúls Capacent, MMR og Félagsvísindastofnunar Háskólans sl. 12 mánuði að viðbættum niðurstöðum kosninganna í gær. Allt fram í janúar á þessu ári var flokkurinn að mælast með um 15% fylgi, oftast tæplega það, og þannig hafði flokkurinn verið að mælast síðastliðin 2-3 ár.

Icesave dómurinn markaði þó mikil tímamót og eins og sjá má á myndinni rauk fylgi flokksins upp á við í kjölfar þess að EFTA dómstóllinn sýknaði íslenska ríkið af öllum kröfum vegna Icesave samningana. Eftir það lá leiðin nánast eingöngu upp á við í könnunum og um miðjan þennan mánuð var flokkurinn að mælast með tæplega 33% fylgi. Fylgi flokksins í könnunum hélt þó ekki út og lækkaði jafnt og þétt síðustu daga fyrir kosningar. Daginn fyrir kjördag mældist flokkurinn með rúmlega 22% fylgi en endaði sem fyrr segir í 24,4% í gær. Það verður þó ekki horft framhjá því að Framsóknarflokkurinn er sigurvegari kosninganna í gær þó rétt sé að taka fram að Björt framtíð, sem var að bjóða fram í fyrsta sinn, fékk 8,2% fylgi eða litlu minna en því sem Framsóknarflokkurinn bætti við sig á milli kosninga.

Fylgi Framsóknarflokksins sl. 12 mánuði skv. könnunum Þjóðarpúls Capacent, MMR og Félagsv.stofnunar HÍ auk niðurstöðu í kosningum 2013.
Fylgi Framsóknarflokksins sl. 12 mánuði skv. könnunum Þjóðarpúls Capacent, MMR og Félagsv.stofnunar HÍ auk niðurstöðu í kosningum 2013.
© vb.is (vb.is)