Fjórir íslenskir embættismenn vinna nú að því að kynna þá fyrirvara sem Alþingi setti við Icesave-ríkisábyrgðina fyrir Bretum og Hollendingum. Embættismennirnir kynntu stöðu málsins fyrir fjárlaganefnd Alþingis í hádeginu.

Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, segir málið í eðlilegum farvegi. Hann segir að ekki hafi komið fram á fundinum hvenær líklegt sé að formlegt viðbrögð fáist frá Bretum og Hollendingum.

Samkvæmt Icesave-ríkisábyrgðinni, sem forsetinn hefur nú staðfest með undirritun sinni, þurfa Bretar og Hollendingar að samþykkja fyrirvara Alþingis áður en fjármálaráðherra fær heimild til að veita ríkisábyrgðina.

Þegar Guðbjartur er spurður hvort stjórnmálamenn ættu ef til vill fremur að kynna fyrirvarana fremur en embættismenn, svarar hann því til að nú sé málið komið úr höndum þingsins og til framkvæmdavaldsins. Það taki því ákvörðun um framhaldið. Hann telji þó eðlilegt að það sé unnið af embættismönnum á þessu stigi.

Fundurinn með fjárlaganefnd í hádeginu stóð yfir í um það bil klukkutíma. Guðbjartur segir að hann hafi fyrst og fremst verið upplýsingafundur og tilgangurinn sé að halda nefndinni upplýstri.

Embætissmennirnir fjórir sem komu á fund nefndarinnar eru: Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, Martin Eyjólfsson, sviðsstjóri viðskiptasviðs utanríkisráðuneytisins og Einar Gunnarsson, skrifstofustjóri á viðskiptasamningaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.