Þingmenn Borgarahreyfingarinnar reyndu að fá forystumenn ríkisstjórnarinnar, Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon til að samþykkja þrjár tillögur varðandi Icesave-málið á fundi með þeim í gærkvöld.

Jóhanna og Steingrímur höfnuðu tillögunum. Það þýðir að þrír þingmenn hreyfingarinnar ætla að styðja tillögu sjálfstæðismanna um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandsaðild.

Þetta kom fram í máli Þórs Saari, þingmanns Borgarahreyfingarinnar, á Alþingi nú fyrir stundu. Síðari umræðu um tillögu ríkisstjórnarinnar um aðildarumsókn að ESB er lokið. Búist er við því að atkvæðagreiðsla fari fram í hádeginu.

Í máli Þórs kom fram að hreyfingin vildi í fyrsta lagi að Icesave-málinu yrði frestað til haustsins. Í öðru lagi að ný samninganefnd yrði skipuð og í þriðja lagi að skýrt verði kveðið á um það með hvaða hætti eignir þeirra sem stofnuðu til Icesave-skuldbindinganna yrðu frystar og hvernig unnt yrði að ná þeim.

Þau Þór, Birgitta Jónsdóttir og Margrét Tryggvadóttir styðja ekki tillögu ríkisstjórnarinnar um aðildarumsókn að ESB - í ljósi þess að ekki var gengið að fyrrnefndum tillögum þeirra.

Það gerir hins vegar fjórði þingmaður hreyfingarinnar, Þráinn Bertelsson.