Allir þingmenn stjórnarmeirihlutans, þ.e. VG og Samfylkingarinnar samþykktu frumvarp ríkisstjórnarinnar um að veita ríkisábyrgð vegna Icesave samkomulagsins við Breta og Hollendinga en kosið var um málið að Alþingi fyrir stundu.

Atkvæðagreiðslan féll þannig að 34 þingmenn samþykktu frumvarpið, 14 sögðu nei, 14 sátu hjá og einn var fjarverandi.

Allir 9 þingmenn Framsóknarflokksins greiddu atkvæði gegn frumvarpinu. Það gerðu einnig Birgitta Jónsdóttir og Margrét Tryggvadóttir úr Borgarahreyfingunni, Árni Johnsen og Birgir Ármannson úr Sjálfstæðisflokknum og Þráinn Bertelsson sem stendur utan flokka.

Þá sátu aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, að formanni og varaformanni meðtöldum, hjá við atkvæðagreiðsluna auk þess sem Þór Saari úr Borgarahreyfingunni sat hjá. Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins var fjarverandi.