Niðurstaða úr Icesave gæti haft áhrif á áætlun um afnám gjaldeyrishafta, en bara að því leyti sem það tefur fjármögnun ríkissjóðs. Þetta sagði Már Guðmundsson á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu í dag. Þar er áætlun um afnám hafta kynnt.

Fyrsta skref afnáms felur í sér útboð þar sem Seðlabankinn kaupir aflandskrónur erlendra aðila með því að heimila að þeim eignum verði skipt, í tveimur skrefum, á móti gjaldeyriseignum innlendra aðila, án þess að ganga á gjaldeyrisforða Seðlabankans.

Már sagði að ekki sé vitað hversu hratt hver áfangi mun ganga. Huga þurfi að lausafjárstöðu bankanna þar sem staðan sé sú að aflandskrónurnar, sem eru metnar á um 460 milljarða, eru í dag að fjármagna bankana sem innstæður. Þessar krónur eru einnig í formi ríkisskuldabréfa og fjármagna því ríkissjóð. Því geti afnám haft áhrif á fjörmögnun ef peningarnir leita úr landi. Í skýrslunni sem birt er í dag er mat Seðlabankans á hversu mikil áhrifin eru á bankanna. Már sagði að samkvæmt því mati þoli bankarnir útstreymi. Þá muni Seðlabankinn grípa til mótvægisaðgerða til að viðhalda lausafjárstöðu í takt við vaxtastigið.

Már sagði að uppfylla þurfi ákveðin skilyrði áður en annar áfangi afnáms hafta hefst. Hann nefndi nægilegan gjaldeyrisforða, að gengi aflandskróna og króna hérlendis sé svipað, að bankakerfið geti fjármagnað sig og endurskoðun peningastefnunnar.

Áætlun um losun gjaldeyrishafta.