Niðurstaða EFTA-dómstólsins í Icesave-málinu á mánudag í næstu viku getur haft talsverð áhrif á stöðu ríkissjóðs og erlenda stöðu þjóðarbúsins. Falli dómur Íslandi í hag er málinu væntanlega þar með lokið. Falli dómur hins vegar gegn íslenska ríkinu tekur hins vegar við óvissa um framhaldið.

Greining Íslandsbanka fjallað um stöðuna í Morgunkorni sínu í dag. Þar er m.a. bent á að hvers svo sem dómurinn verður þá muni hann ekki kveða á um fjárhæðir, þ.e. vaxtakostnað. En þar sem eignir Landsbankans duga fyrir útgreiðslu á höfuðstól Icesave-innstæðnanna myndu kröfur Breta og Hollendinga væntanlega fyrst og fremst snúa að vaxtakostnaði. Rifjað er upp að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) hafi metið hugsanlegan kostnað ríkissjóðs á bilinu 3,5% - 20% af vergri landsframleiðslu fari svo að Bretar og Hollendingar fái í kjölfarið dæmdan vaxtakostnað af hendi ríkissjóðs. Það nemur frá 60 til 335 milljarða króna miðað við áætlaða landsframleiðslu í fyrra. Upphæðin fer reyndar eftir því hvort vextir eru greiddir af lágmarkstryggðum innstæðum eða öllum innstæðum og hvort um samningsvexti eða refsivexti er að ræða. Skuldir ríkissjóðs myndu í kjölfarið aukast sem þessu nemur og erlend staða þjóðarbúsins rýrna að sama skapi.

Matsfyrirtækin fylgjast með

Greining Íslandsbanka bendir sömuleiðis á að stóru lánshæfisfyrirtækin, Fitch, Moody's og Standard & Poor's, hafi fylgst með Icesave-málinu enda óvíst með lánshæfi íslenska ríkisins undanfarið vegna málsins. Óvissan hefur m.a. komið í veg fyrir að Moody's breyti einkunn ríkissjóðs úr neikvæðum í stöðugar. Dómsorðið á mánudag getur því haft talsverð áhrif á efnahagshorfur hér næstu misserin, að sögn greiningardeildarinnar.

Ítarlega er fjallað um Icesave-málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.