Ef Icesave-samningarnir hefðu verið samþykktir á sínum tíma þá hefði landið farið í þrot, að sögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins. Hann kom inn á samningana í sérstakri umræðu á Alþingi í dag þar sem hann var málshefjandi. Umræðuefnið var skuldastaða þjóðarbúsins.

Sigmundur sagði mikla óvissu um raunverulega skuldastöðu þjóðarbúsins. Hann nefndi að Seðlabankinn hafi sett fram eina áætlun en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn aðra og verri. Þá vitnaði hann til nýjasta matsins sem Ragnar Árnason, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, fjallaði um í Morgunblaðinu dag. Þar telur hann skuldir þjóðarbúsins nema 100% af vergri landsframleiðslu, sem jafngildir 1.600 milljörðum króna. Sigmundur benti á að inni í tölunni séu nettóáhrifin af þrotabúum gömlu bankanna 30-40% af vergri landsframleiðslu.

„Þetta eru nýjar fjárhæðir sem breyta áætlunum okkar um að standa straum af kostnaði þjóðarbúsins,“ sagði Sigmundur og lagði áherslu á að skuldastaðan væri enn verri ef vöxtum sem fylgdu Icesave-samningunum hefði verið bætt við stöðuna eins og hún er nú.

„Ef samningarnir hefðu verið samþykktir á sínum tíma hefði landið komið í þrot,“ sagði hann.

Átti að kosta 50 milljarða + 3% af landsframleiðslu

Sigmundur, sem mælti gegn Icesave-samningunum á sínum tíma,  tilgreindi ekki hvaða Icesave-samninga hann átti við. Síðustu Icesave-samningar voru undirritaðir undir lok árs 2010 en felldir í þjóðaratkvæðagreiðslu vorið eftir.

Samningurinn fól í grófum dráttum í sér að hann náði til ársins 2024. Hann mátti framlengja til ársins 2042. Vextir af láninu miðuðust við 3,3% til stjórnvalda í Bretlandi en 3% til Hollendinga frá í október árið 2009 og til ársins 2016. Þá var 5% þak á vöxtunum og var miðað við tekjur ríkisins, gjaldfellingarákvæði, vanefndarúrræði, fjárhæðaviðmið og greiðslufresti. Samninganefndin sem Lee Buchheit leiddi taldi á sínum tíma að samningurinn myndi kosta ríkið 50 milljarða króna en að vaxtakostnaður myndi falla á ríkissjóð. Kostnaðurinn gæti verið um 3% af landsframleiðslu.