Hollenskir innistæðueigendur hafa með tölvupósti til allra Alþingismanna í gærkvöldi ítrekað að hollensk yfirvöld muni styðja þá í málshöfðun vegna ICESAVE. Yfirlýsingar hollenska fjármálaráðherrans um annað standist ekki. „Við treystum því að ráðherrann muni standa við þau orð sem hann gaf hollenska þinginu og að hann muni styðja okkur.”

Vitnað er í umræður á hollenska þinginu um Icesave málið sem fram fóru þann 25. júní. Þar hafi allir viðstaddir þingmenn, bæði úr stjórn og stjórnarandstöðu, krafist þess að hollenska ríkið gæti ekki skilið einstaka þolendur í þessu máli eftir án stuðnings. Þetta hafi fjármálaráðherrann samþykkt og að hann myndi kynna þinginu innan þriggja mánaða (fyrir ágústlok) þær ráðstafanir sem hann gerði til að styðja þennan hóp.

Segir í tölvupóstinum að tillaga hópsins sem lögð hafi verið fyrir alþingismenn á Íslandi þýddi mun minni áhættu og kostnað fyrir Ísland. Þá segir:

„Við teljum að samningurinn sem þið hafi fyrir framan ykkur núna muni leiða Ísland inn í enn meiri erfiðleika en þegar eru orðnir og sé óaðgengilegur fyrir Ísland. Enginn hagnast á fyrirliggjandi samningi og hann mun einungis veita einhvern skammtíma pólitískan ávinning.”