Breska ríkið hefur fengið greidda rúma 1,36 milljarða punda af Icesave-kröfu sinni frá gamla Landsbankanum.  Jafngildir það tæplega 270 milljörðum íslenskra króna og hafa bresk stjórnvöld því innheimt 85% af heildarkröfunni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá breska fjármálaráðuneytinu.

Andrea Leadsom hjá breska fjármálaráðuneytinu segir það hafa verið lykilatriði hjá ráðuneytinu að endurheimta peninga skattgreiðenda sem þeir hafi tapað í efnahagshruninu 2008 og þar sé fall íslensku viðskiptabankanna með talið. Hún segir fall þeirra hafa kostað skattgreiðendur í Bretlandi milljarða punda þar sem alls óvíst hafi verið að nokkuð af því fengist endurheimt.

Í frétt Telegraph um málið er greint frá því að bresk stjórnvöld reikni með að krafan verði að fullu greidd árið 2017, en alls hafa bresk stjórnvöld fengið 3,8 milljarða punda greidda í heildina. Heildarkrafan nemur um 4,5 milljörðum punda.