Miklar líkur eru á því að Icesave-málið fari aftur inn í þing á allra næstu dögum. Jafnvel er viðbúið að ríkisstjórnin verði kölluð saman um helgina eða fljótlega eftir hana til að senda málið frá sér til löggjafans.

Þeir þingmenn úr Vinstri grænum sem gagnrýnt hafa málið leggja mikla áherslu á að Icesave  fari óundirritað af hálfu framkvæmdavaldsins inn í þingið, og fyrst til fjárlaganefndar þingsins.

Búist er við því að það muni ganga eftir.

Ekkert liggur fyrir um það hvernig málið verður endanlega afgreitt frá þingi. Þó telja heimildar innan úr stjórnarheimilinu að málið hafi þokast í rétta átt, eins og það er orðað, hvað varðar eina þá helstu kröfu Íslendinga að þeir geti véfengt lagalega greiðsluskyldu sínu.

Eins og kunnugt er samþykkti Alþingi Icesave-ríkisábyrgðina í lok sumars með lagalegum og efnahagslegum fyrirvörum. Þingið gerði um leið það að skilyrði fyrir ábyrgðinni að Bretar og Hollendingar samþykktu fyrirvarana.

Það hafa þeir ekki gert og því hafa átt sér stað viðræður um mögulegar breytingar á þeim. Verði þeim breytt þarf þingið að fallast á þær breytingar svo ríkisábyrgðin fyrir Icesave-innstæðum Breta og Hollendinga öðlist gildi.