Íslendingar unnu glæsilegan sigur í Icesave-deilunni með sýknudómi EFTA-dómstólsins í morgun, að sögn bandaríska dagblaðsins Wall Street Journal. Málið var forsíðuefni evrópuútgáfu blaðsins á Netinu í dag og þar fullyrt að það sé skólabókardæmi um það til hvaða ráða ríki þurfi að grípa í kerfishruni. Þar er því sömuleiðis velt upp að niðurstaðan geti haft áhrif á lög og reglur um innstæðutryggingar innan Evrópusambandsins.

Í umfjöllun blaðsins er bent á að hlutfall erlendra viðskiptavina sem Tryggingasjóður innstæðueigenda þurfti að tryggja hafi verið óvenjulega hátt vegna Icesave-reikninga Landsbankans. Það er þó sambærilegt og á Kýpur nú. Stjórnvöld þar í landi hafa óskað eftir neyðarláni frá Evrópusambandsríkjunum. Þjóðverjar eru á meðal þeirra sem hafa varað þá sem eiga innstæður í bönkum á Kýpur að ólíklegt sé að þeir fái innstæður sínar til baka.

Í evrópuútgáfu Wall Street Journal er m.a. rætt við stjórnmálafræðinginn Eirík Bergmann um vextina sem stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa þrýst á að íslenska ríkið greiði vegna þeirra fjármuna sem Bretar og Hollendingar reiddu frá þegar innstæðueigendum var greitt á sínum tíma. Eiríkur bendir á að krafan um vaxtagreiðslur sé eitt þeirra mála sem EFTA-dómstóllinn hafi fellt niður.