ESA, eftirlitsstofnun EFTA, mun fara með Icesave-málið fyrir EFTA-dómstólinn en ekki bíða eftir uppgjöri þrotabús Landsbankans. Frá þessu greinir Fréttablaðið í dag og vísar til heimilda. Í frétt blaðsins segir að leitað hafi verið svara hjá upplýsingafulltrúa ESA sem ekki vilji tjá sig um málsmeðferðina að öðru leyti en því að stjórnvöldum hafi verið gefinn frestur til mánaðarmóta að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er það skoðun ESA að endurheimtur muni ekki hafa efnisleg áhrif á málið og það sé íslenskra stjórnvalda að sjá til þess að staðið sé við lágmarkstryggingu innistæðna, 20.667 evrur á hvern innistæðueiganda. Þegar það sé gert, verði fallið frá málinu.

Blaðið hefur eftir Lárusi Blöndal, hæstaréttarlögmanni, að fari allt á versta veg og dómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að innistæðueigendum hafi verið mismunað geti Bretar og Hollendingar gert kröfu um að fá alla þá fjárhæð sem reidd var af höndum til innistæðueigenda endurgreidda með vöxtum.