Í vikunni bárust óformlegar hugmyndir Breta og Hollendinga um hvernig þeir telja sig geta staðið að samþykki fyrirvara við Icesave-samningana. Þetta segir Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra.

Hann segir hugmyndirnar lagðar fram í trúnaði og því geti hann ekki upplýst um eðli þeirra að svo stöddu. Þær hafi verið kynntar ríkisstjórninni og verði sömuleiðis kynntar fjárlaganefnd Alþingis kl. 18 í dag.

„Það er jákvætt að heyra frá þeim," segir Indriði en ítrekar að hann geti ekki upplýst um efnisinnihaldið.

Inntur eftir því hvenær viðbrögðin hafi borist segir hann að málin hafi skýrst á mánudag.

Frumvarpið um Icesave-ríkisábyrgðina var lagt fram á Alþingi í lok júní. Það byggði á samningum sem undirritaðir voru við Breta og Hollendinga í byrjun júní.

Frumvarpið var síðan samþykkt í lok ágúst en áður hafði Alþingi gert efnahagslega og lagalega fyrirvara við ríkisábyrgðina. Þá var það gert að skilyrði að Bretar og Hollendingar þyrftu að samþykkja fyrirvarana áður en fjármálaráðherra fengi heimild til að veita ábyrgðina.