Fjöldi þeirra sem stofnað hafa Icesave reikninga í Hollandi er nú kominn í 3.500 í lok dags. Eins og sagt hefur verið frá hóf Landsbankinn inngöngu sína á hollenskan markað í dag með Icesave reikningunum sem reynst hafa vel í Bretlandi. „Okkur hefur oft gengið vel en ég man ekki til þess að okkur hafi gengið svona vel áður, eins og nú á fyrsta degi,“ sagði Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans, í samtali við Viðskiptablaðið fyrir skömmu. Halldór sagðist ekki kunna neina eina skýringu á þessari óvæntu velgengni á fyrsta degi.

Til samanburðar má nefna að þegar boðið var upp á Icesave reikninga í Bretlandi voru stofnaðir um 10.000 reikningar fyrsta mánuðinn.