Óvissa ríkir um afgreiðslu Alþingis á Icesave-ríkisábyrgðinni en ef marka má heimildir Viðskiptablaðsins úr röðum stjórnarflokkanna verður frumvarpið varla samþykkt frá Alþingi óbreytt.

Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, útilokar ekki að þingið muni setja fyrirvara við túlkun á því hvað felist í ríkisábyrgðinni.

Málið hefur verið til umfjöllunar í nefndum þingsins í bráðum tvær vikur. Ekki iggur fyrir hvenær það verður afgreitt til annarrar umræðu.

Málið er á forræði fjárlaganefndar milli umræðna á þingfundi en efnahags- og skattanefnd og utanríkismálanefnd veita einnig umsagnir í málinu.

Guðbjartur segir að verið sé að fara yfir málið eins vel og kostur er. Hann sem og forystumenn stjórnarflokkanna hafa lagt áherslu á að málið verði afgreitt í sumar.

Þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna eru hins vegar á því að málið eigi að bíða til hausts.