Það gæti dregist fram í  maí eða júní að ganga endanlega frá samkomulagi við Breta og Hollendinga um lausn Icesave-deilunnar.

Samkomulag náðist milli hollenskra og íslenskra stjórnvalda í október síðastliðnum um að Hollendingar lánuðu Íslendingum til að standa undir greiðslum til hollenskra innstæðueigenda og var í því samkomulagi gert ráð fyrir vaxtakjörum upp á 6,7 prósent.

Dágóður tími hefur farið í það síðan þá að vinda ofan af þeim vaxtakjörum.

Bretar fóru fram á sams konar kjör á láni sínu til Íslendinga - og gengu um tíma mjög hart fram í þeim efnum - en ljóst er að vextirnir eru alltof háir.

Íslensk stjórnvöld halda því nú m.a. fram, máli sínu til stuðnings, að um bráðabirgðasamkomulag hafi verið að ræða. Samkomulagið við Hollendinga sé því ekki bindandi. Það hafi auk þess ekki verið staðfest af Alþingi.

Í tilkynningu stjórnvalda um samkomulagið við Hollendinga á sínum tíma var þó hvergi tekið fram að um bráðbirgðasamkomulag væri að ræða. Þvert á móti fögnuðu fjármálaráðherrar Hollands og Íslands því sérstaklega að samkomulag væri í höfn.

Hvert prósentustig kostar sex milljarða á ári

Það skiptir miklu fyrir Íslendinga að fá viðunandi vaxtakjör. Samtals er lánið sem Íslendingar þurfa að taka á sig vegna Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi og Hollandi í kringum 600 milljarðar króna. Hvert prósentustig vegna lánsins kostar því um sex milljarða á ári.

Bresk og hollensk stjórnvöld tóku lán fyrir jól til að greiða innstæðueigendum í löndunum tveimur hámarksupphæðina 20.887 evrur. Lánin voru tekin í krafti þess að Íslendingar myndu endurgreiða þau. Vextirnir á lánunum voru í kringum fjögur til fimm prósent. Íslensk stjórnvöld hafa í viðræðum sínum vegna Icesave reynt að koma vaxtakjörunum að minnsta kosti þangað niður. Íslendingar eigi með öðrum orðum ekki að greiða meira en þann kostnað sem Bretar og Hollendingar beri af lánunum.

Icesave- málið er þó enn ekki að fullu útkljáð milli Íslendinga, Hollendinga og Breta. Ekki liggur fyrir hvenær viðræðunefndir landanna hittast næst. Það gæti orðið á næstu vikum. Þá verður væntanlega rætt frekar um vaxtaprósentuna, lánstímann og hvenær byrja eigi að greiða af láninu. Íslensk stjórnvöld vilja að greiðslubyrðin verði ekki þung til að byrja með.Talið er að það geti jafnvel dregist fram í maí eða júní að ganga endanlega frá samkomulagi.

Nánar er greint frá Icesave-viðræðunum í fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu í dag.