Alþingi samþykkti fyrir stundu að heimila fjármálaráðherra að undirrita samkomulag við breska og hollenska ríkið um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingasjóðs innstæðueigenda.

Þetta er í þriðja sinn sem Alþingi greiðir atkvæðu um sama mál en þó með mismunandi samkomulag undir höndum.

Frumvarpið var samþykkt með 44 atkvæðum gegn 16. Þrír þingmenn sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Allir þingmenn stjórnarmeirihlutans, að þeim Lilju Mósesdóttur og Ásmundi Einari Daðasyni undanskildum sem sögðu nei, samþykktu frumvarpið en þess utan greiddu 11 þingmenn Sjálfstæðisflokksins atkvæði með frumvarpinu.

Þau Birgir Ármannsson, Sigurður Kári Kristjánsson, Pétur H. Blöndal og Unnur Brá Konráðsdóttir voru einu þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem greiddu atkvæði gegn frumvarpinu. Guðlaugur Þór Þórðarson sat hjá við atkvæðagreiðsluna ásamt þeim Siv Friðleifsdóttur og Guðmundi Steingrímssyni, þingmönnum Framsóknarflokksins.

Aðrir þingmenn Framsóknarflokksins greiddu atkvæði gegn frumvarpinu ásamt þingmönnum Hreyfingarinnar.