GAMMA fjármálafyrirtæki hefur birt umsögn sína um mat á helstu áhættuþáttum hins nýja Icesave-samkomulags og áhrif á greiðslustöðu ríkissjóðs. Fjárlaganefnd Alþingis óskaði eftir umögninni. Einnig var óskað eftir samanburði á ákvæðum og kostnaði nýja samkomulagsins við það eldra.

Umsögnina og kynningu á helstu atriðum má nálgast hér á heimasíðu GAMMA. Tekið er fram að umsögn GAMMA er á fjármálalegum forsendum en ekki lögfræðilegum atriðum.

Helstu áhættuþættir sem nefndir eru í áltinu eru endurheimtuáhætta (endurheimtuhlutfall og tímasetning greiðslna úr þrotabúi), gengisáhætta (þróun íslensku krónunnar og þróun punds gagnvart dollar) og vaxtaáhætta (vaxtastig í evru og pundi þann 30. júní 2016 þegar nýtt vaxtaviðmið verður sett).

Stillt er upp fjórum sviðsmyndum út frá eftirfarandi forsendum:

  • Ekki er gert ráð fyrir neinni ávöxtun á eignasafn þrotabúsins umfram áætlanir skilanefndar.
  • Fyrsta greiðsla úr þrotabúinu 1. júlí 2011
  • Hlutfall íslenska ríkisins verði 51% af greiðslum úr þrotabúinu.
  • Íslenska ríkið greiði upp um 30 milljarða áfallna vexti þann 1. apr. 2011 og noti upp í það 20 milljarða úr sjóði Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta.

Sviðsmynd 1 gefur þá niðurstöðu að lægri mörk heildarkostnaðar ríkissjóðs vegna Icesave verði 26 milljarðar króna. Er þá gert ráð fyrir að „Ragnar Hall“-ákvæði falli Tryggingasjóði í hag. Myndi það leiða til hraðari niðurgreiðslu höfuðstóls og segir að hægt sé að túlka sviðsmyndina sem hraðari og hærri endurheimtur en áætlun skilanefndar gerir ráð fyrir. Að auki er gert fyrir 2% styrkingu krónunnar á ársfjórðungi (35% styrking til 2016).

Sviðsmynd 2 gerir ráð fyrir endurheimtum samkvæmt áætlun skilanefndar Landsbankans ásamt styrkingu krónunnar um 2% á ársfjórðungi. Niðurstaðan er heildarkostnaður um 44 milljarða króna.

Sviðsmynd 3 gerir ráð fyrir óbreyttu gengi gjaldmiðla og að áætlun skilanefndar um endurheimtur verði óbreytt. Heildarkostnaður yrði þá um 67 milljarðar króna.

Sviðsmynd 4 gerir ráð fyrir 2% veikingu krónunnar á ársfjórðungi og að fyrsta greiðsla úr þrotabúi berist ekki fyrr en 1. apríl 2012 ásamt því að innheimtur úr þrotabúi lækki um 10% frá áætlun skilanefndar. Hærri mörk kostnaður ríkisins við þær forsendur er 233 milljarðar króna.

Aukinn forgangur eða hraðari endurheimtur gætu lækkað heildarkostnað í 35 milljarða króna miðað við óbreytt gengi og mat skilanefndar á endurheimtum (sviðsmynd 3). Seinkun greiðslna og 10% lakari endurheimtur gætu hækkað heildarkostnað í 145 milljarða króna.

Ef litið er til þróunar krónunnar gæti 2% styrking á ársfjórðungi lækkað heildarkostnað í 44 milljarða króna og 2% veiking hækkað kostnaðinn í 155 milljarða króna, sé miðað við sviðsmynd 3.

Samanburður við eldri samninga

Miðað við óbreytt gengi gjaldmiðla og síðustu áætlun um endurheimtur áætlar GAMMA að heildarkostnaður við fyrri samninga hafi verið um 248 milljarðar króna. Heildarkostnaður við fyrirhugaða samninga er þannig metinn um 181 milljarði lægri að nafnvirði og 121 milljarði lægri að núvirði en fyrri samningar.

Segir að helstu ástæður fyrir lægri heildarkostnaði séu lægri vextir og styttri líftími. Vaxtagreiðslur nýja samningsins með eldri vaxtaforsendum væru um 120 milljarðar króna í stað 72 milljarða.

Samkvæmt útreikningum GAMMA er áhætta af endurheimtum og tímasetningum þeirra og áhætta á veikingu krónunnar meiri en áhættan á að ríkið lendi í greiðsluvandræðum vegna samningsins. Segir í kynningunni að Ísland þurfi að lenda í töluverðum skakkaföllum til viðbótar til að greiðslubyrði verði íslenska ríkinu ofviða, miðað við ofangreindar sviðsmyndir. Ef sviðsmynd 4 rætist gæti þó þung greiðslubyrði Icesave reynst þungur baggi á greiðslugetu ríkissjóðs og þjóðarbúsins.

Kynningu á umsögn GAMMA má sjá hér og umsögnina hér .