Meirihluti utanríkismálanefndar þingsins leggur til að fjárlaganefnd skoði hvort hægt sé að setja fyrirvara við Icesave-ríkisábyrgðina. Nefndin var að afgreiða málið úr nefnd rétt í þessu.

Ekki náðist í Árna Þór Sigurðsson, formann utanríkismálanefndar þingsins, en eftir því sem næst verður komist koma fjögur mismunandi nefndarálit um málið frá nefndarmönnum.

Samfylkingin og VG standa að meirihluta áliti en sjálfstæðismenn, Framsóknarflokkur og Borgarahreyfingin skila hver um sig séráliti.

Fjárlaganefnd þingsins hefur forræði yfir Icesave-frumvarpinu milli umræðna á þingfundi en utanríkismálanefnd og efnahags- og skattanefnd þingsins veita fjárlaganefnd umsagnir sínar.