Nýr vefur hefur verið opnaður um Icesav á slóðinni http://www.iceslave.is . Að sögn Einars Sigurbergssonar, eins af aðstandendum síðunnar er tilgangurinn með henni að gefa fólki grófa mynd af heildarskuldbindingum þeim sem íslenska ríkið tekur á sig eins og þær eru á hverjum tíma.

,,Það er ætlun okkar gera klukkuna nákvæmari og að uppfæra síðuna jafn óðum og upplýsingar fást s.s. ef greitt verður inn á lánið. Þá er og ætlunin að auka gagnvirkni fyrir notendur í framtíðinni."

Einar benti á að í raun og veru kemur verðmæti eignasafnsins hvergi við sögu á síðunni.

,,Við leyfum lesandanum að giska á það sjálfum. Fólki er gefinn kostur á að giska á hve hátt hlutfall af upphaflegri fjárhæð Icesave lánanna verði hægt að greiða upp með eignasafninu eftir hinn 7 ára langa greiðslufrest, ekki hve hátt hlutfall eignasafnsins innheimtist eða hvert verðmæti þess er. Það er mikilvægt að gera þennan greinarmun, ekki er verið að áætla hversu hátt hlutfall eignasafnsins fæst til baka, heldur fyrir hversu stórum hluta upphaflegrar lánsfjárhæðar eignasafnið dugar."

Auk Einars stendur Sævar Guðmundsson að síðunni. Einar er lögfræðingur en Sævar er laganemi.