Icewear hefur tekið við veitinga- og verslunarrekstri Þjóðgarðsins á Þingvöllum, Þjónustumiðstöðinni á Leirum og Gestastofu sem er staðsett rétt við útsýnisskífuna á Hakinu, þar sem gengið er niður í Almannagjá. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður árið 1930 og í dag eru Þingvellir einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins. Þetta kemur fram í tilkynningu.

"Markmiðið er að bjóða innlendum og erlendum gestum Þjóðgarðsins upp á úrval af gjafavöru sem tengist Þingvöllum, sögu Íslendinga og merkilegum atburðum, náttúru staðarins og ekki síst dýralífinu á svæðinu. Hönnun á vörulínu sem tengist Þingvöllum er þegar hafin og við erum mjög spennt fyrir því að takast á við verkefnið sem tengist þessum merkilega stað sem skipar sérstakan sess í hugum allra Íslendinga." segir Aðalsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Icewear, í tilkynningunni.

Drífa ehf. rekur verslanir Icewear og Icemart. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum tók tilboði Drífu ehf. í veitinga- og verslunarrekstur á Þingvöllum í kjölfar útboðs Ríkiskaupa en þrjú tilboð bárust í reksturinn. Gerður var samningur til þriggja ára með möguleika á að framlengja samninginn tvisvar sinnum um eitt ár.