Hækka þarf iðgjöld á líftryggingar kvenna vegna nýrrar tilskipunar frá Evrópusambandinu sem tekur gildi 21. desember næstkomandi. Kemur þetta fram í svari Tryggingavaktarinnar við fyrirspurn lesanda á vefnum Spyr.is.

Samkvæmt tilskipun frá ESB eiga karlar og konur að greiða sama gjald fyrir persónutryggingar, t.d. líf- og sjúkdómatryggingar. Hingað til hefur áhættumatið verið reiknað út frá reynslu og hafa konur greitt lægra iðgjald vegna þess að þær lifa að meðaltali lengur en karlar. Karlar undir þrítugu hafa aftur á móti greitt lægra iðgjald fyrir sjúkdómatryggingar en konur á sama aldri, en eftir það snýst dæmið við.

Spurning lesandans kom til vegna símtals frá Tryggingavaktinni, þar sem lesandinn var upplýstur um þessa væntanlegu hækkun á iðgjöldum.