Óhætt er að segja að grænt hafi verið yfir mörkuðum í dag í kjölfar stýrivaxtalækkunar Seðlabankans í morgun og útgáfu nýrrar hagvaxtaspár.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,35% í viðskiptum dagsins en alls hækkuðu sautján félög í verði, þar af átta um meira en 2%, tvö félög stóðu í stað á meðan bréf Sýnar voru þau einu sem lækkuðu.

Mest hækkun varð á bréfum Icelandair Group eða 5,15% í 148 milljóna veltu. Bréf Regins hækkuðu um 4,17% í 436 milljóna viðskiptum auk þess sem bréf tryggingafélaganna þriggja hækkuðu um 2 til 3,2% þar sem mest hækkun var á bréfum TM.

Eins og áður segir voru bréf Sýnar þau einu sem lækkuðu eða um 0,7% í 45 milljóna viðskiptum en um hádegi greindi félagið frá því að viðskiptavild vegna kaupa á 365 miðlum hefði verið færð niður um 2,5 milljarða.

Velta á markaðnum nam tæplega 4,3 milljörðum þar sem mest velta var með bréf Marel sem hækkuðu um 1,11% í 932 milljóna viðskiptum. Viðskipti dagsins voru 198 talsins þar sem mest viðskipti flest viðskipti vorum með Icelandair 24.