Miklar hækkanir hafa verið á hlutabréfamarkaði í Evrópu í dag vegna vona fjárfesta um að niðurstaða fáist í endurskipulagningu á skuldum Grikklands við fjárfesta með tilheyrandi niðurfærslu á skuldabréfum landsins.

Markaðir Asíu tóku mikið stökk í nótt og hækkaði Nikkei-vísitalan t.d. um liðlega 2% og Hang Seng-vísitalan í Hong Kong um 1,3%. Það sem af er degi hafa evrópskar vísitölur verið algrænar og CAC í París og Dax í Frankfurt hafa hækkað um 1,75%.

Miðað við tölur á framvirkum markaði með hlutabréf vestur í Bandaríkjunum má vænta þess að hlutabréf þar muni einnig hækka verulega en framvirka gengið með S&P 500 hafði hækkað um 0,84%, Nasdaq um 0,7% og Dow Jones um 0,65%.