Fulltrúar iðnaðarmannasamfélagsins áttu í gær fund með Samtökum atvinnulífsins þar sem kröfur þeirra voru lagðar fram. Þá krefjast þeir að byrjunarlaun iðnaðarmanns með sveinspróf hækki upp í 381.326 kr., almenna hækkun launa um 20% og verðtryggingu launa ef samið verður til lengri tíma en eins árs.

Orðrétt segir í kröfugerðinni: „Verðbólga hefur verið lág undanfarið en hugmyndir um afnám gjaldeyrishafta valda óvissu. Ef og þegar þær hugmyndir koma til framkvæmda mun íslenska krónan veikjast verulega til skamms tíma og jafnvel til lengri tíma litið. Verði samið til lengri tíma en eins árs er óhjákvæmilegt annað en að verðtryggja laun, til að tryggja þann kaupmáttarauka sem samið verður um.“

Ekki mikil skynsemi

Í samtali við Morgunblaðið í morgun segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, að kröfur iðnaðarmanna séu ekki skynsamar og að erfitt verði að vinna úr þeim.

„Fyrir það fyrsta sýnist okkur að þarna sé verið að fara fram á 30- 40% launahækkun á tólf mánaða tímabili. Það gefur augaleið að slíkt getur aldrei gengið upp innan einhvers verðlagsstöðugleika og setur stöðuna í heildarviðræðum á vinnumarkaði í mjög einkennilega stöðu. Annars vegar er verið að biðja um sérstaka hækkun á lægstu launin, en síðan kemur tekjuhópur eins og iðnaðarmenn, sem er með meðallaun nokkuð yfir með- allaunum í þjóðfélaginu, og út frá einhverju viðmiði sem þeir hafa fundið sér telja þeir sig þurfa sérstaka launahækkun umfram aðra. Það er erfitt að móta heildstæða línu í kjaraviðræðum út frá slíku,“ segir Þorsteinn.