Rafiðnaðarsamband Íslands, Matvís, Samiðn, Grafía - stéttarfélag í prent- og miðlunargreinum, Félag hársnyrtisveina og  Félag vélstjóra og málmtæknimanna (VM) fara fram á að lágmarkslaun félaga sinna hækki um 100 þúsund krónur. Þetta kemur fram á fréttavef Vísis.

Verði kröfur iðnaðarmannafélaganna að veruleika verða lágmarkslaun samkvæmt kjarasamningum 380 þúsund krónur borið saman við 280 þúsund krónur á mánuði.

Kristján Þórður Snæbjarnarson segir hinsvegar að kostnaðarauki vinnuveitenda verði ekki eins mikill og tölurnar beri með sér, enda vinni flestir innan félaganna á hærri töxtum en lágmarkslaunum.

„Við erum með sameiginlegar kröfur og við viljum taka á dagvinnulaunum iðnaðarmanna í heild sinni. Lágmarkslaun iðnaðarmanna eru nánast þau sömu á milli samninga en við erum með kröfu um að fara með lágmarkslaun iðnaðarmanna upp í 381 þúsund krónur,“ er haft eftir Kristjáni. „Það er verið að lyfta gólfinu upp að markaðslaunum og það kostar töluvert mikið minna en prósenta segir til um," segir hann jafnframt.