Stjórnvöld vilja gera allt sem í þeirra valdi standi til að gera kínverska auðmanninum Huang Nubo kleift að fjárfesta hér á landi. Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra sagði í kvöldfréttum RÚV stjórnvöld hafa sett sig í samband við Nubo og sé stefnt að því að ræða við hann og veita honum ráðleggingar um það hvernig hann geti fjárfest hér á landi innan íslensks lagaramma.

Innanríkisráðuneytið hafnaði á föstudag í síðustu viku beiðni Nubos um heimild til að kaupa jörðina Grímsstaði á Fjöllum. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði niðurstöðuna skýrast af því að félag sem Nubo er meirihlutaeigandi í sótti um heimildina en ekki hann sjálfur.

Ákvörðun innanríkisráðherra var þvert á það sem hinn helmingurinn af ríkisstjórninni hafði óskað sér.

Nubo sagði eftir að ákvörðunin lá fyrir að hann hafi lagt öll áform um fjárfestingar hér á hilluna.

Katrín hafði eftir Nubo að hann hafi horft til þess að fjárfesta í ferðaþjónustu, kaup á landi hafi ekki verið nauðsynleg.

Hún sagði í samtali við RÚV bjartsýn á að samningar náist.