Einn virkjanakostur sem er sjaldan er talað um og er ekki getið í rammaáætlun né þarf að fara í gegnum umhverfismat, er sameiningarafl þjóðarinnar, sem er kominn tími til að virkja. Horfa þarf fram á veginn, sagði Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, á ársfundi Landsvirkjunar í dag.

Katrín sagði að Ísland sé blessað með miklum náttúruöflum. Á síðustu árum hafi hinsvegar þjóðin skipt sér í tvennt eftir flokkadrætti, í umhverfissinna og virkjanasinna. Hún sagði að flestir séu þó sammála um skynsamlega nýtingu, finna þurfi rétta skurðpunktinn milli náttúruverndar og virkjunarframkvæmda.

Hún sagði að marka þurfi skýra stefnu og að unnið hafi verið að því innan iðnaðarráðuneytisins að mynda langtímastefnu. Drög að því liggja nú fyrir og er í umsóknarferli. Stefnt er að því að frumvarp um nýtingu fallvatna verði lagt fyrir á yfirstandandi þingi. Þá mun einnig liggja fyrir röðun á virkjanakostum og eins röðun þeirra staða sem ekki stendur til að virkja á, sagði Katrín.

Í stefnumörkun sem unnið er að er gert ráð fyrir erlendri fjárfestingu sem sé arðsöm og umhverfisvæn. Hún þarf að falla vel að ímynd Íslands, sagði Katrín. Katrín tók fram að fjárfestingar í orkugeiranum þurfi að vera umhverfisvænar í þeim skilningi að hún mengi ekki.