Rekstur Íslenskrar erfðagreiningar virðist hafa verið kominn í öngstræti ef marga má síðasta ársreikning félagsins. Skuldir félagsins námu tæpum níu milljörðum króna og var allt hlutafé í fyrirtækinu veðsett upp í topp. Greint var frá því fyrir stundu að rekstur Íslenskrar erfðagreiningar hafi verið selt bandaríska líftæknifyrirtækinu Amgen fyrir 415 milljónir dala, jafnvirði 52 milljarða króna.

Íslensk erfðagreining tapaði 14 milljónum dala, jafnvirði tæpra 1,8 milljarða króna, í skugga 65% tekjusamdráttar á síðasta ári. Á sama tíma var eigið féð neikvætt um 51 milljón dala, jafnvirði rúmra 6,4 milljarða króna. Viðskiptablaðið fjallaði um stöðu Íslenskrar erfðagreiningar fyrir tæpum hálfum mánuði. Þar var bent á að fyrirtækið ætti nægt rekstrarfé til að þrauka fram á fyrsta fjórðung á næsta ári. Í Viðskiptablaðinu sagði jafnframt, að framtíðin velti á stórum hluta á fjármögnun núverandi eigenda. Núverandi eigendur Íslenskrar erfðagreiningar er félagið Saga Investment Cooperatief U.A.

Veðsett í topp

Saga Investment keypti rekstur Íslenskrar erfðagreiningar úr þrotabúi deCODE Genetics inc. í janúar árið 2010 eftir að móðurfélagið var tekið til gjaldþrotaskipta í Bandaríkjunum í nóvember árið 2009. Félagið veðsetti allt hlutafé Íslenska erfðagreiningu til félagsins Hercules Technology Growth Capital í júlí á síðasta ári í kjölfarið á lánasamnings. Í ársreikningi Íslenskrar erfðagreiningar kemur fram að félagið fékk lánalínu hjá Hercules Technology Growth upp á 12 milljónir dollara, sem átti að greiðast undir vissum skilyrðum í þremur áföngum. Íslensk erfðagreining fékk fimm milljónir dala í fyrsta áfanga en náði ekki að uppfylla skilyrði fyrir næstu tveimur áföngum. Fresturinn rann út í lok mars á þessu ári.

Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, var gefinn kostur á að tjá sig um málið en hann bauðst til að ræða við blaðamann í kringum 10. desember þar sem hann vildi ekki ræða málefni fyrirtækisins að svo stöddu.