Íslensk erfðagreining og Illumina, Inc. greindu í dag frá því að fyrirtækin hafi tekið upp samstarf um að þróa og markaðssetja DNA-greiningarpróf fyrir algenga sjúkdóma.

Í tilkynningu frá ÍE kemur fram að tækni sem Illumina hefur þróað til að skima breytileika í öllu erfðamenginu verður notuð við þróun greiningarprófa fyrir erfðabreytileika sem vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar hafa sýnt að tengist auknum líkum á fjölda algengra og alvarlegra sjúkdóma.

Í fyrstu nær samstarfið til þróunar og mögulegrar markaðssetningar á prófum til að greina breytileika í þremur erfðavísum sem tengjast hjartaáföllum, sykursýki af gerð 2 og brjóstakrabbameini. Fyrirtækin munu deila þróunarkostnaði sem og hugsanlegum tekjum af sölu greiningarprófa.

Samkvæmt samkomulagi fyrirtækjanna mun tæknibúnaður frá Illumina til viðamikilla skimana á erfðamenginu verða settur upp í höfuðstöðvum Íslenskrar erfðagreiningar. Það mun gera Íslenskri erfðagreiningu kleift að bjóða viðskiptavinum sínum á sviði arfgerðargreininga upp á víðtæka þjónustu við slíkar skimanir. Vísindamenn fyrirtækisins munu einnig nota þessa aðstöðu til að framkvæma mjög nákvæmar skimanir á öllu erfðamenginu í erfðarannsóknum sínum á algengum sjúkdómum, sem yfir 100.000 Íslendingar hafa tekið þátt í.

?Með þessum samningi getum við enn aukið á forskot okkar við að nota niðurstöður erfðarannsókna til að þróa ný lyf. Tækni Illumina mun auðvelda okkur meingenaleitina og möguleg sala á greiningarprófum gæti einnig skapað okkur tekjur innan tiltölulega skamms tíma. Þær uppgötvanir sem við höfum kynnt heiminum undanfarið sýna hverju erfðarannsóknir á þessum skala geta skilað. Við erum mjög ánægð með þá tækni sem Illumina leggur til samstarfsins og mér finnst það mjög spennandi að hefja samstarf við þetta vaxandi fyrirtæki um þróun og markaðssetningu nýrrar kynslóðar DNA-greiningarprófa," sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar í tilkynningu félagsins.

Jay Flatley, forstjóri Illumina segir að hann reikni með að greiningarpróf sem þróuð verði í samvinnu fyrirtækjanna verði mikilvægur liður í forvörnum og heilsugæslu. ?Okkur finnst mjög spennandi að sameina krafta okkar og Íslenskrar erfðagreiningar sem hefur verið brautryðjandi í erfðarannsóknum á líffræðilegum orsökum algengra sjúkdóma og þróun nýrra lyfja á þeim grunni."