Íslensk erfðagreining greindi frá því í dag að fyrirtækið hafi sótt um skráningu á tilraunalyfinu DG041 hjá bandaríska Matvæla- og lyfjaeftirlitinu. DG041 er lítil lyfjasameind af nýjum lyfjaflokki sem beint er gegn æðakölkun í fótum og er ætlað til inntöku í töfluformi. Forklínískar rannsóknir hafa sýnt að DG041 hindrar starfsemi EP3-viðtaka boðefnisins prostaglandíns E2 og kemur í veg fyrir samloðun blóðflagna af völdum þess.

EP3-viðtakinn var skilgreindur sem lyfjamark í æðakölkun út frá niðurstöðum erfðarannsókna fyrirtækisins. Þær sýndu að breytileiki í erfðavísi sem geymir upplýsingar um byggingu EP3-viðtakans tengist aukinni hættu á æðakölkun í fótum. Gert er ráð fyrir að fyrstu klínísku lyfjaprófanirnar á lyfinu muni hefjast á fyrri hluta þessa árs, ef tilskilin leyfi fást hjá bandaríska Matvæla- og lyfjaeftirlitinu.

"Eftir því sem ég best veit er DG041 fyrsta lyfið sem er þróað út frá niðurstöðum erfðarannsókna á algengum sjúkdómi. Þetta er líka fyrsta lyfið sem við höfum þróað alfarið upp á eigin spýtur með því að nota þá aðstöðu sem við höfum komið okkur upp til lyfjaþróunar. Það er mikil þörf á nýjum meðferðarúrræðum gegn æðakölkun og DG041 er sértækt lyf sem beint er að líffræðilegum orsökum sjúkdómsins. Mér finnst þetta vera mjög spennandi verkefni sem sýnir hversu fljótt við getum breytt grunnuppgötvun í erfðafræði í nýtt lyf," sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar í tilkynningu frá félaginu. "Það er talið að EP3-viðtakinn sem við höfum verið að vinna með sem lyfjamark hafi einnig eitthvað að segja í því hvernig við skynjum sársauka. Við höfum þess vegna líka verið að kanna möguleikann á því að lyfjaefni sem hafa áhrif á starfsemi EP3-viðtakans megi nota til að meðhöndla viðvarandi sársauka, í staðinn fyrir lyf sem hindra starfsemi COX-2 ensímsins og önnur skyld verkjalyf."

Útæðasjúkdómur hrjáir um 10% fullorðinna í vestrænum löndum og yfir 20% þeirra sem komnir eru yfir sjötugt. Sjúkdómurinn lýsir sér í því að útæðar þrengjast vegna fituhrörnunar/kölkunar og blóðstreymi hindrast í höndum og fótum. Helti vegna tímabundins sársauka í mjöðmum, kálfum og þjóhnöppum við göngu eða æfingar eru helstu einkenni sjúkdómsins. Takmarkað blóðflæði til vöðva getur valdið sársauka sem hverfur um leið og hreyfingu lýkur. Ef æð stíflast getur það leitt til dreps í útlimum en það er þó fremur sjaldgæft. Engin lyfjameðferð er þekkt sem hefur áhrif á líffræðilegar orsakir sjúkdómsins eða kemur í veg fyrir framþróun hans.

Um DG041

Erfðarannsóknir Íslenskrar erfðagreiningar á útæðasjúkdómi sýndu að algengur breytileiki í PTGER3 erfðavísinum, sem hefur að geyma upplýsingar um byggingu EP3-viðtakans, tengist töluvert auknum líkum á æðakölkun. Talið er að þetta stafi af aukinni tjáningu á erfðavísinum og aukinni myndun á EP3-viðtakanum. Virknirannsóknir hafa sýnt að EP3 gegnir hlutverki í líffræðilegu starfi blóðflagna og æðaveggja. Vitað er að EP3-viðtakinn er til staðar í sléttum vöðvafrumum í æðaskellum og að þegar EP3-viðtakinn bindur prostaglandín E2 leiðir það til aukinnar samloðunar blóðflagna.

DG041 er nýr, sértækur og mjög virkur hindri á starfsemi EP3-viðtakans. Í forklínískum rannsóknum hefur verið sýnt fram á að lyfið hindrar samloðun blóðflagna af völdum prostaglandíns E2 í tilraunaglösum og að þessi áhrif eru háð skammtastærð lyfsins. Lyfið hindraði einnig samloðun blóðflagna í rottum sem gefið hafði verið lyfið. Ennfremur hefur verið sýnt fram á að lyfið verndar mýs gegn samloðun blóðflagna í æðum af völdum efnis sem veldur blóðstorknun. Lyfið hafði hins vegar lítil áhrif á blæðitíma í dýratilraunum, né hafði það áhrif á aðra þætti sem valda samloðun blóðflagna, svo sem ADP, kollagen, þrombín eða epínefrín.