Stjórn og framkvæmdastjóri Íslensk-evrópska viðskiptaráðsins áttu í dag fund með Ann Linde, Evrópumála- og viðskiptaráðherra Svíþjóðar, sem stödd var hér á landi vegna opnunar Flúðaorku í Hrunamannahreppi og viðræðna við íslensk stjórnvöld. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Félags atvinnurekenda.

Ráðherrann og fylgdarlið hennar skiptust á skoðunum við fulltrúa ÍEV um stöðu EES-samningsins, útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu (Brexit), stöðu fríverslunar á heimsvísu í ljósi viðskiptadeilna Bandaríkjanna og Evrópusambandsins og fleiri mál.

Fulltrúar ÍEV fóru meðal annars yfir áhyggjur sínar af meintum seinagangi við innleiðingu EES-reglna á Íslandi, meintum brotum íslenskra stjórnvalda á EES-samningnum hvað varðar bann við innflutningi ferskvöru og meintri ómálefnalegri framkvæmd tollasamnings Íslands og Evrópusambandsins, sem tók gildi í maí síðastliðnum.

Fyrirtæki búi sig undir Brexit

Mikið var rætt um Brexit og sagði sænski ráðherrann það skoðun sína að sænsk fyrirtæki þyrftu að búa sig betur undir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, sem myndi hafa umtalsverð neikvæð áhrif á utanríkisviðskipti. Jafnvel þótt Bretland legði enga tolla á vörur frá ESB-ríkjum gæti toll- og landamæraeftirlit orðið tímafrekt og fyrirhafnarsamt og fyrirtæki sem flyttu vörur til og í gegnum Bretland gætu þurft að búa sig undir tafir, þyrftu jafnvel að huga að auknu vörugeymsluplássi og þar fram eftir götum. Fulltrúar ÍEV ræddu einnig sínar áhyggjur af Brexit, ekki síst vegna flutnings á ferskfiski til ESB-ríkja um Bretland, en nýjar hindranir í formi landamæra- og heilbrigðiseftirlits gætu valdið töfum á slíkum flutningum.

Fulltrúar ÍEV á fundinum voru f.v. stjórnarmennirnir Margrét Guðmundsdóttir og Damien Degeorges, Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri og Páll Rúnar M. Kristjánsson formaður.

EFTA-ríkjunum verði haldið skaðlausum

Rætt var um stöðu fríverslunar í ljósi viðskiptadeilna ESB og Bandaríkjanna og sagði Linde ríki Evrópusambandsins leggja áherslu á að Ísland og önnur EFTA/EES-ríki yrðu ekki fyrir skaða af tollum eða öðrum aðgerðum sem gripið yrði til í því skyni að mæta refsitollum Bandaríkjanna.