IFS Greining gerir ráð fyrir 0,7% hækkun vísitölu neysluverðs í september en gangi spá IFS eftir mun 12 mánaða verðbólga mælast 10,7% og 3 mánaða verðbólga1 5,7%.

Samkvæmt verðkönnun IFS voru miklar hækkanir á matvöru milli ágúst og september. Samtals hækkuðu matvörur um 2,6% sem hefur um 0,37% áhrif á vísitölu neysluverðs til hækkunar. Sykur, sælgæti, gosdrykkir, safar og aðrar matvörur, s.s. innflutt matvæli eins og pakkavara hækkuðu í sumum tilfellum á þriðja tug prósenta.

Þannig segir IFS að áhrif hækkunar framangreindra liða á vísitölu neysluverðs séu rúmlega 0,4%. Hins vegar lækkar verð annarra matvæla lítillega sem vegur á móti áhrifum sykurhækkana.

Síðustu sumarútsölunum lauk í lok ágúst. IFS reiknar með um 3% hækkun á fatnaði af þessum sökum sem hefur 0,18% áhrif á vísitölu neysluverðs. Samfara veikingu krónu og skattahækkana hækkaði eldsneytisverð mikið í sumar. Bensínverð hefur lækkað örlítið frá síðustu mælingu vísitölu neysluverðs en áhrifin á lækkun vísitölunnar eru óveruleg eða 0,02%.

Samkvæmt Fasteignaskrá Íslands hefur fasteignaverð hækkað tvo mánuði í röð. IFS segir að hins vegar hafi alls ekki alltaf verið samræmi í mælingu á fasteignaverði sem að Fasteignaskrá Íslands tekur saman og mælingu Hagstofunnar á svokallaðri reiknaðri húsaleigu.

„Við spáum því að reiknuð húsaleiga lækki minna en undanfarna mánuði,“ segir í verðbólguspá IFS.

„Við teljum að viðhald og leiga hækki sem mun vega á móti lækkun reiknaðrar húsaleigu. Við spáum því að fasteignaliður vísitölunnar verði óbreyttur milli mánaða.“