Verðbólguspá IFS Greiningar fyrir janúar hljóðar upp á 1,3% hækkun vísitölu neysluverðs. Ef spáin gengur eftir mun 12 mánaða verðbólga mælast 8,3%.

Þetta kemur fram í verðbólguspá IFS en þar kemur einnig fram að IFS telur skattahækkanir og árstíðabundnar hækkanir vega þungt.

„Samkvæmt okkar útreikningum leiðir hækkun á  virðisaukaskatti og hækkun á vörugjöldum til um 1,2% hækkunar á vísitölu neysluverðs,“ segir í spá IFS.

„Að okkar mati hafa árlegar verðskrárhækkanir um 0,6% áhrif á vísitölu neysluverðs til hækkunar. Á móti verðhækkunum koma árlegar janúarútsölur en við metum að áhrif þeirra til lækkunar á verðlagi sé um 0,5%.“

Eins og áður hefur komið fram hækkaði áfengis -og tóbaksgjald um 10% um áramótin en IFS segir það leiða til þess að áfengi og tóbak hækkar um tæplega 7% sem hefur 0,23% áhrif á vísitöluna til hækkunar.

Eldsneytisgjald hækkaði einnig um áramótin og hefur eldsneyti hækkað um 4% sem hefur 0,18% áhrif á vísitölu neysluverð til hækkunar að mati IFS. Auðlinda -og orkuskattur lagðist ofan á orkuverð.

Þá segir IFS að samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitu Reykjavíkur hækkar rafmagn um u.þ.b. 4% og heitt vatn um  u.þ.b. 3% sem hefur 0,09% áhrif á vísitöluna til hækkunar.

Föt og raftæki lækka

Í spá IFS kemur fram að verð fatnaðar og raftækja lækkar að venju á þessum árstíma og gerir IFS ráð fyrir að áhrif lækkana á vísitölu séu 0,5%.

Þá gerir IFS ráð fyrir um 0,5% lækkun á fasteignaverði sem hefur um 0,07% áhrif á vísitöluneysluverð til lækkunar. Samkvæmt verðkönnun IFS hækkaði verð matvæla um 1% sem er jafnmikið og virðisaukaskattur hækkaði.

„Á þessum árstíma eru öllu jöfnu verðskrárhækkanir á ýmissi þjónustu og gerum við ráð fyrir að áhrif þeirra nemi 0,6%,“ segir í spá IFS.

Hvað varð um verðhjöðnunina?

IFS rifjar upp að í upphafi síðasta árs voru margir bjartsýnir á verðhjöðnun í byrjun þessa árs.

„Nafnlækkun húsnæðisverðs, styrking krónu og almennur verðslaki vegna lítillar eftirspurnar og atvinnuleysis taldi mönnum trú um að verðbólgan myndi hjaðna hratt,“ segir í spá IFS.

„Í kjölfar gengisveikingar síðasta sumar og endurtekinna skattahækkana náði verðbólgan að grafa um sig að minnsta kosti tímabundið. Sífellt fleiri virðast trúa því að verðbólgan verði há yfir lengri tíma en verðbólguálag til 2 ára er tæplega 5%. Við spáum nú um 6% meðalverðbólgu árið 2010 en spáðum áður 1%. Eftir því sem það tekur lengri tíma fyrir verðbólguna að koma niður aukast verðbólguvæntingar almennings og fjárfesta.“