Verðbólguspá IFS Greiningar fyrir októbermánuð hljóðar upp á 0,5% hækkun vísitölu neysluverðs. Ef spáin gengur eftir mun 12 mánaða verðbólga mælast 9%.

Þetta kemur fram í verðbólguspá IFS en hún er í takt við verðbólgu smá Greiningar Íslandsbanka en reynist þessar spár réttar verður verðbólgan þá loks komin undir tveggja stafa tölu í næsta mánuði og í lægsta gildi sitt síðan í mars 2008.

„Líkur eru á að 12 mánaða verðbólga lækki hratt á næstu mánuðum,“ segir í spá IFS.

„Fyrir ári síðan voru miklar hækkanir á vísitölu neysluverðs sem detta úr mælingunni á komandi mánuðum. Síðastliðna mánuði hefur 3 mánaða  verðbólga verið 6 til 8% en hún gefur oft betri mynd af undirliggjandi verðbólgu.“

Matvöruverð hækkar, en bensín lækkar lítillega Verðkönnun IFS bendir til að matvælaverð sé enn að hækka vegna sykurskatts. Samkvæmt mælingu IFS hækkaði verð á matvöru um 1,3% sem hefur um 0,2% áhrif á vísitölu neysluverðs til hækkunar. Í kjölfar útsala komi nýjar vörur á markað og hækkar verð fatnaðar, raftækja og húsgagna oft á þessum árstíma. Þá reiknar IFS með að framangreindir þættir hafi um 0,2 til 0,25% áhrif á vísitölu neysluverðs til hækkunar.   Þá kemur jafnframt fram að bensínverð hafi lækkað um 1 til 2 kr. frá síðustu mælingu en áhrifin á vísitöluna séu óveruleg eða 0,03% til lækkunar.

Fasteignaverð stærsti óvissuliðurinn

„Við reiknum með óbreyttu fasteignaverði á milli mánaða,“ segir í spá IFS en fram kemur að hækkun byggingarvísitölunnar bendi til að nokkrar hækkanir hafi verið á viðgerðum og viðhaldi húsnæðis. Almennt gerir IFS ráð fyrir nokkurri hækkun á ýmiskonar þjónustu sem hefur um 0,1% áhrif á vísitölu neysluverðs til hækkunar.

Búast við að stýrivextir lækki niður í 10%

„Þótt lengi hafi verið fyrirsjáanlegt að verðbólga færi hratt lækkandi gætu sálræn áhrif þess að 12 mánaða verðbólgan sé nú skaplegri en áður verið nokkur,“ segir í spá IFS.

„Ef verðbólgan lækkar áfram í svipuðum takti er þess ekki langt að bíða að hún verði komin í 6 til 7% og raunstýrivextir Seðlabanka í 5 til 6%. Raunvaxtastig upp á 5 til 6% er umtalsvert hærra en í okkar helstu nágranna löndum. Við höldum fast í þá spá okkar að vextir verði lækkaðir niður í 10% fram að áramótum.“