Í ljósi veiks gengis krónunnar hefur afgangur af vöruskiptum valdið nokkrum vonbrigðum. Hins vegar koma tölur um jákvæðan afgang af þjónustujöfnuði þægilega á óvart og eru ívið hærri en flestir þorðu að spá í upphafi árs.

Þetta kemur fram í umfjöllun IFS Greiningar um þjónustujöfnuð og vöruskiptajöfnuð en samkvæmt tölum sem Hagstofan birti í gær var þjónustujöfnuður jákvæður um 20,8 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi og hefur afgangur þjónustujafnaðar verið 30,6 milljarða króna fyrstu 9 mánuði ársins.

Til samanburðar var afgangur af vöruskiptum á sama tíma í fyrra 43,7 milljarðar króna. Samtals nemur afgangur þjónustu –og vöruskipta um 74,3 milljörðum á fyrstu níu mánuðum ársins.

Þjónustujöfnuði er skipt í þrennt: Samgöngur, ferðalög og aðra þjónustu. Samgöngur eru t.d. flutningar á landi, láði og legi með farþega og fragt. Töluverður afgangur var á þessari þjónustu á þriðja ársfjórðungi eða tæplega 12 milljarðar króna.

Ferðalög eru útgjöld og tekjur vegna ferðalaga. Mikill afgangur var á þessum lið sem má líklega þakka samdrætti í ferðalögum Íslendinga erlendis og aukinni neyslu erlendra ferðamanna á Íslandi. Samtals nam afgangur af ferðalögum tæpum 11 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi. Til samanburðar var halli á þessum lið sem nam um 6 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi 2009. Undir annarri þjónustu eru ýmsir liðir en halli af annarri þjónustu nam um 2 milljörðum króna.

Hver þarf afgangurinn að vera?

IFS segir að til að greiða niður erlend lán þjóðarbúsins þurfi erlendar tekjur að koma á móti.

„Fyrr á þessu ári mátum við að afgangur vöruskipta -og þjónustu þyrfti að vera frá 7 upp í 9 ma kr. á mánuði til að standa undir erlendum vaxtagreiðslum og framtíðar vaxtagreiðslum vegna Icesave,“ segir í umfjöllun IFS.

„Framangreint mat okkar er þó til endurskoðunar í ljósi þess að erlend skuldastaða virðist hærri og kostnaður vegna Icesave meiri. Miðað við eldra mat hefur afgangur vöruskipta og þjónustu verið nægilegur fjóra af níu mánuðum ársins og virðist vera svipaður og erlendar vaxtagreiðslur ásamt framtíðar vaxtagreiðslum af Icesave.“