Bjartsýnustu spár liðins vetrar gerðu ráð fyrir að kreppan yrði djúp en stutt og að byrjað yrði að birta til á komandi vetri. Þær spár gerðu ráð fyrir hraðari endurskipulagningu hagkerfisins en raun hefur orðið á og botninum verður líklega ekki náð fyrr en um mitt næsta ár. Þetta kemur fram í nýrri ársfjórðungsskýrslu IFS Greiningar um efnahagsmál.

Í skýrslunni segir að flest bendi til að viðsnúningur verði hægur. Mikil skuldsetning og neikvætt eiginfjárhlutfall, sérstaklega hjá hinum yngri, muni leiða til þess að aukinn hagvöxtur í krafti aukinnar skuldsetningar sé ólíklegur á næstu árum. Mörg fyrirtæki séu tæknilega gjaldþrota eða með lélegan fjármagnsstofn og ekki líkleg til mikilla fjárfestinga. Þá muni hærri skattar og minni ríkisútgjöld á næstu árum einnig halda aftur af viðsnúningnum.

Veikara gengi ef ekki semst við AGS

IFS gerir ráð fyrir styrkingu krónunnar ef næsti hluti láns AGS fæst, sem ætti að koma í ljós í lok ágúst. Nái samningurinn ekki fram að ganga á næstu vikum sé hins vegar hætt við að gengi verði veikt áfram og er það fráviksspá. Í grunnspá er gert ráð fyrir að meðalgengi krónunnar verði 223 stig á 3. ársfjórðungi og 213 stig á 4. ársfjórðungi. Gengisvísitalan stóð í tæpum 233 stigum í gær. Í fráviksspánni er gert ráð fyrir að gengisvísitalan verði að meðaltali 233 stig á þessum fjórðungi og 229 stig á fjórða fjórðungi. Í skýrslunni segir að ólíklegt sé að stýrivextir verði lækkaðir mikið ef gjaldeyrisforðinn styrkist ekki.

Neikvæður hagvöxtur á næsta ári

Í grunnspá sinni gerir IFS ráð fyrir 5% verðbólgu um áramótin og að meðalverðbólga á næsta ári verði 1,7%. Lítill munur er á fráviksspá og grunnspá. Samkvæmt fráviksspánni verður verðbólgan 6% um áramótin og 2,4% að meðaltali á næsta ári.

IFS spáir því að hagvöxtur verði neikvæður um 10% á þessu ári, og um 0,5% á á því næsta, en verði jákvæður um 2% árið 2011. Þetta má sjá í meðfylgjandi töflu.