Hækkun á eldsneytisverði og útsölulok valda að mestum hluta hækkun tólf mánaða verðbólgu nú í mars.

Þetta segir í viðbrögðum IFS Greiningar við nýjustu verðbólgutölum en eins og Hagstofan greindi frá í morgun hækkaði vísitalan neysluverðs um 0,55% mars sem þýðir að tólf mánaða verðbólga mælist nú 8,5%.

Eins og smá má á myndinni hér til hliðar hækkar verðbólgan í fyrsta skipti á milli mánaða frá því í júní í fyrra. Í upprunalegri verðbólguspá IFS var gert ráð fyrir um 2% hækkun eldsneytisverðs. Olíufélögin hækkuðu eldsneytisverð hins vegar um ein 2% til viðbótar eftir útgáfu spárinnar að sögn IFS og því áhrif hækkunarinnar var því 0,22% eða um helmingi meiri en IFS gerði ráð fyrir.

Í viðbrögðum IFS er þó vakin athygli á því að eldsneytisverð stjórnast af verði á heimsmarkaði, ekki af innlendum eftirspurnarþrýstingi heldur af ytri þáttum sem eru utan áhrifasvæðis Seðlabanka.

Verð á fatnaði hækkaði um 7% vegna útsöluloka sem hafði um 0,41% áhrif á vísitölu neysluverðs til hækkunar.  IFS segir sveiflur í verðum vegna útsala vera árstíðabundnar og þær hafi lítið að gera með almenna verðþróun.

„Ef hækkun vísitölu neysluverðs er leiðrétt fyrir eldsneytisverði og árstíðabundnum hækkun vegna útsala var verðhjöðnun í mars,“ segir í viðbrögðum IFS.

„Seinustu mælingar benda til lítillar undirliggjandi verðbólgu. Þrír liðir útskýra hækkun vísitölu neysluverðs síðustu mánuði. Útsölulok, skattahækkanir og hækkun á eldsneytisverði. Verðbólgan er því ekki eftirspurnardrifin.“