Verðbólguspá IFS Greiningar fyrir september hljóðar upp á hækkun vísitölu neysluverðs um 0,3%.  Til samanburðar, þá var verðbólgan 0,78% (9,75% á ársgrundvelli) í september 2009.

Ef spáin gengur eftir, mun 12 mánaða verðbólga mælast 4% - og þannig lækka úr 4,5% frá því í ágúst. Verðbólga undanfarinna þriggja mánaða á ársgrundvelli hækkar úr -2,9% í –0,5%.

Þetta kemur fram í verðbólguspá IFS.

Fram kemur að í meðalári hækkar verð á fatnaði um 8,3% í september og verð á skóm um 2,2%. Hinsvegar hafi verð á fatnaði og skóm lækkað minna í mælingu Hagstofunnar júlí-ágúst en í venjulegu ári, t.d. hefur verð á fatnaði lækkað um 6,9% á þessu tímabili nú samanborið við 10,9% í venjulegu ári.

Verð á skóm lækkaði um 2,2% júlí-ágúst en lækkar um 4,8% í venjulegu ári. Samkvæmt mælingu Hagstofunnar gengu útsöluáhrif að miklu leyti til baka í ágúst. Af þessum orsökum er gert ráð fyrir minni hækkun á vísitölu neysluverðs vegna hverfandi útsöluáhrifa eða 5% hækkun á verði fatnaðar og 1% hækkun á skóverði.   Þá kemur einnig fram að samkvæmt algengum verðum hjá stóru olíufélögunum þá hefur verð á bensíni lækkað um 0,34% en verð á dísel hefur hækkað um 0,16%.

Loks bendir mánaðarleg verðmæling IFS til 0,5% lækkunar á verði matarkörfunnar. Þá telur IFS Líklegt að styrking krónunnar leiði til lækkunar á verði matarkörfunnar og áhrifinna gæti hægt og rólega.