IFS Greining hefur gert verðbólguspá fyrir októbermánuð og gerir ráð fyrir að verðlag hækki um 1,2% frá fyrri mánuði.

Þannig verði tólf mánaða verðbólga 14,8% samkvæmt spánni og hækkar úr rúmum 14%.

Þetta kemur fram í verðbólguspá IFS Greiningar fyrir október.

Í spá IFS kemur fram að mikil óvissa einkenni nú allt efnahagsástandið og sviptingar í efnahags- og gengismálum geri verðbólguspár afar erfiðar að þessu sinni.

„Í lok september leit út fyrir að mikil veiking krónunnar vægi þungt til hækkunar vísitölu neysluverðs. Til að mynda hefur eldsneytisverð lækkað aftur í fyrra horf þrátt fyrir mikla hækkun undir lok september,“ segir í skýrslunni.

„Gjaldeyrismarkaður hefur nær lokast og er gjaldeyrisskömmtun við líði sem hefur áhrif á allt innflutningsverðlag.“

Innfluttar vörur hækka mest

Þá kemur fram að vegna mikillar veiking krónunnar er gert ráð fyrir hækkandi verðlagi á eldsneyti og matvælum.

IFS Greining gerir ráð fyrir að eldsneyti hækki um 0,2% sem hefur 0,01% áhrif á vísitöluna. Matvæli hækki um 1,3% sem veldur um 0,16% hækkun neysluverðsvísitölunnar. Gert er ráð fyrir að aðrar innfluttar vörur hækki töluvert.

Óðaverðbólga ekki sennileg

IFS telur ólíklegt að til óðaverðbólgu komi og telur að verðbólguhorfur næstu mánuði séu ekki sem verstar að því gefnu að gengi krónunnar veikist ekki frekar en komið er.

„Sökum vaxandi atvinnuleysis, ládeyðu á fasteignamarkaði og lítillar eftirspurnar í hagkerfinu verður svigrúm til verðhækkana takmarkað,“ segir í skýrslu IFS Greiningar.