IFS greining gerir ráð fyrir 0,9% hækkun vísitölu neysluverðs í febrúar en ef spáin gengur eftir mun 12 mánaða verðbólga mælast 18,0% og lækkar um 0,6 prósentustig frá fyrra mánuði.

Þetta kemur fram í verðbólguspá IFS greiningar.

Þar kemur fram að vegna útsöluloka mun vísitala neysluverðs mælast hærri en annars hefði verið en tekið er fram mæling vísitölu neysluverðs hafi að sama skapi verið lægri í síðasta mánuði.

„Við fyrstu sýn mætti telja spána nokkuð háa, en ef frá eru dregnar verðhækkanir vegna útsöluloka sem áætlaðar eru 0,3-0,4%, er spáin lág í samanburði við mánuðina á undan,“ segir í verðbólguspánni.

Þá kemur fram að útsöluáhrif hafi verið óvenju lítil í síðasta mánuði og verð á fatnaði lækkað mun minna vegna þessa en á sama tíma í fyrra.

„IFS greining spáir því að sama skapi muni verð hækka minna nú vegna útsöluloka en oft áður,“ segir í spánni.

„Að okkar mati liggur ein mesta óvissan í þessum lið en vel er hugsanlegt að einhverjir kaupmenn kjósi að hækka verð umtalsvert eftir útsölur.“

Enn verðhækkanir á matvælum

Samkvæmt verðkönnun IFS greiningar eru enn verðhækkanir á matvælaverði. Aðallega er um að ræða hækkanir á innfluttum matvælum en verð innlendra matvæla virðist að mestu standa í stað.

Könnun IFS greiningar á matvælaverði sýndi um 1,8% hækkun á matvælum sem mun hafa um 0,25% áhrif á vísitölu neysluverð til hækkunar.

Eldsneytisverð nær óbreytt, bifreiðar hækka í verði

Þá kemur fram að eldsneytisverð hefur lækkað óverulega í mánuðinum og eru áhrif vegna verðskrárhækkana í vísitölu neysluverðs óveruleg. Samkvæmt lauslegri könnun IFS greiningar eru þó nokkrar gjaldskrárhækkanir á nýjum bifreiðum og að mati IFS greiningar hafa um 0,25% áhrif á vísitölu neysluverðs til hækkunar.

Fasteignaverð dalar, bensínverð óbreytt

Þá reiknar IFS greining með því að fasteignaverð muni heldur dala en viðhald á húsnæði og annar rekstrarkostnaður vegna húsnæðis hækki líkt og mánuðina á undan.

„Líklegt er að enn séu einhverjar verðhækkanir vegna veikingu krónu í lok síðasta árs sem munu hafa nokkur áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs,“ segir í spá IFS greiningar.

„Gengi krónunnar hefur styrkst töluvert að undanförnu og ætti það að draga úr verðbólguhraða á komandi mánuðum. Hins vegar sýnir reynslan að hækkanir og lækkanir vegna veikingar eða styrkingar krónu eru langt frá því að vera samhverfar.“