IFS Greining gerir ráð fyrir að verðlag hækki um 2,6% frá fyrri mánuði. Tólf mánaða verðbólga verður 18,1% og hækkar því um rúmlega 2 prósentustig frá því í október.

Þetta kemur fram í verðbólguspá IFS Greiningar fyrir nóvember.

„Veiking krónunnar hefur farið frekar hljótt en frá því um miðjan október hefur gengi krónu veikst um 12% á móti evru,“ segir í skýrslu IFS Greiningar.

„Gengi evru stóð í 150 krónum í uppboðum Seðlabankans um miðjan október en á uppboði gærdagsins var gengi evru í 170 krónum.“

Hækkun matvara vegur þungt

Þá segir IFS Greining að þrátt fyrir minnkandi sölu sé erfitt fyrir verslunareigendur að halda aftur að verðlagshækkunum þegar að veiking krónunnar er orðinn jafn mikil og raun ber vitni.

Að mati Greiningar IFS mun matvælaverð hækka um rúmlega 5% sem hefur 0,7% áhrif á vísitölu neysluverðs til hækkunar.

Þá kemur fram að verð á áfengi hækkaði um 5,25% um mánaðarmótin sem hefur um 0,1% áhrif á vísitölu neysluverðs.

Innkaup fyrir jólin

Í skýrslu IFS Greiningar er vakin athygli á því að á haustin undirbúa kaupmenn sig að öllu jöfnu fyrir jólin.

„Og er hætt við að jólagjafirnar í ár verði nokkuð dýrari en á seinasta ári,“ segir í skýrslunni.

IFS Greining telur líklegt að alls konar afþreyingar vörur svo sem geisladiskar, bækur og önnur rafmagnstæki hækki vegna hærra innkaupsverðs.

Sama eigi við um fatnað, gjafavörur, hreinlætisvörur og flest það sem notað er til jólahalds. Samtals er um marga smáa hluti sem vega þungt þegar þeir eru lagðir saman.

Þá kemur fram að fasteignamarkaðurinn hefur verið nær frosinn og fasteignaverð heldur farið lækkandi. Heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað en á móti kemur veiking krónu sem hefur leitt til þess að lækkanir á eldsneyti hafa ekki verið jafn miklar og annars.

„Þessir tveir liðir munu vega á móti hækkun innflutnings verðlags,“ segir í skýrslu IFS Greiningar.