IFS greiningar gerir ráð fyrir 0,6% hækkun vísitöluneysluverðs í janúar en gangi spáin eftir mun 12 mánaða verðbólga mælast 18,6% og hækkar um 0,5 prósentustig frá fyrra mánuði.

Þetta kemur fram í nýrri verðbólguspá IFS greiningar en ef spáin gengur eftir er um að ræða lægstu mánaðarhækkun sem mælst hefur í heilt ár.

„Áhrif vegna gengislækkunar krónunnar virðast að mestu vera komin fram og reiknar IFS greining með að töluvert muni draga úr verðbólguhraðanum á komandi mánuðum,“ segir í verðbólguspánni.

„Matið byggist þó á því að gengi krónunnar muni ekki taka fleiri dýfur á næstunni.“

Samkvæmt verðkönnun IFS greiningar hefur dregið úr hraða verðhækkana á matvælum og reiknar IFS greining með 0,6% hækkun á matvælum nú sem hefur 0,08% áhrif á vísitölu neysluverð.

„Matvælaverð hækkar oft fyrir jól en verðhækkanir á ýmsum matvælum virðast vera að ganga til baka s.s. ávöxtum, grænmeti og kjöti,“ segir í spánni.

Að vanda hafa útsölur eftir jól mikil áhrif á vísitölu neysluverðs og gerir IFS greining ráð fyrir að útsölur muni hafa um 0,5% til 0,8% áhrif til lækkunar á vísitölu neysluverðs.

Gjaldskrárhækkanir valda óvissu

Vegna gjaldskrárhækkana, þá sérstaklega hjá opinberum fyrirtækjum býst IFS greining við töluverðum hækkunum á heilbrigðis-og félagslegri þjónustu en IFS greining líklegt er að niðurskurður ríkisstjórnar og sveitarfélaga muni koma fram í verðskrár hækkunum.

Einnig býst IFS greining við hækkunum á tryggingum, auk verðskrárhækkana vegna reksturs og viðhalds á húsnæði. Auk þess hækkar ýmis konar þjónusta á þessum árstíma.

Að mati greiningardeildar munu verðskrárhækkanir auk hækkana á ýmiskonar þjónustu hafa um 0,6 til 0,9% áhrif á vísitölu neysluverðs til hækkunar.