Verðbólguspá IFS Greiningar fyrir nóvember hljóðar upp á 0,5% hækkun vísitölu neysluverðs en ef spáin gengur eftir mun 12 mánaða verðbólga mælast 8,4%.

Verðbólgan verður því áfram undir tveggja stafa tölu í næsta mánuði og í lægsta gildi sínu síðan í febrúar 2008.

Þetta kemur fram í nýrri verðbólguspá frá IFS Greiningu en IFS segir líkur á að 12 mánaða verðbólga lækki hratt á næstu mánuðum. Fyrir ári síðan voru miklar hækkanir á vísitölu neysluverðs sem detta úr mælingunni á komandi mánuðum.   Í verðbólguspánni kemur fram að bensínverð hefur lækkað um 1-2 kr. frá síðustu mælingu en áhrifin á vísitöluna eru óveruleg eða 0,07% til lækkunar. Á sama tíma hafa dekkjaverkstæði hækkað verð og í spánni er gert ráð fyrir 1% hækkun viðhalds ökutækja (0,01% vísitöluáhrif).

Þá reiknar IFS með óbreyttu fasteignaverði á milli mánaða. Hækkun byggingarvísitölunnar bendir til að nokkrar hækkanir hafi verið á viðgerðum og viðhaldi húsnæðis en byggingarvísitalan hækkaði um 0,34% í október (0,02% vísitöluáhrif).

„Mælingar okkar benda til þess að nær engar verðhækkanir hafi átt sér stað á matvælamarkaði en að fatnaður hafi hækkað umtalsvert,“ segir í spá IFS.

„Nú fer jólahátíðin að færast í hönd og jólavarningur að fylla hillur verslana. Líklegt er að einhverjar verðhækkanir eigi sér stað nú er nýjar vörur koma í hillur sem keyptar hafa verið á lægra gengi en þær sem fyrir voru.“

Verðhækkanir vegna veiks gengis

Þá segir IFS að samkvæmt heimildum þeirra eiga enn eftir að koma fram einhverjar verðhækkanir á matvælaverði vegna gengisveikingar. Stórir smásöluaðilar hafi haldið aftur að verðhækkunum og spurning hversu lengi það haldi. Einnig virðist gæta þess að innflutningsaðilar, sem sumir hverjir hafi ekki hækkað vörur í samræmi við veikingu krónu, sjái ekki fram á að krónan styrkist á næstunni og bíða því færis til að hækka vöruverð.

„Samkvæmt því eru enn nokkur áhrif gengisveikingar sem eiga eftir að koma fram. Að okkar mati er meiri hætta á því að verðbólgan mælist hærri en spá okkar segir til um,“ segir í spá IFS.