Síðan 1968 hefur raunávöxtun fasteigna á Íslandi numið 1,6% að meðaltali á ári en til samanburðar má nefna að í Bandaríkjunum hefur raunávöxtun á fasteignamarkaði numið 1,3% að meðaltali á ári.

Síðan 1968 hefur raunávöxtun fasteigna á Íslandi verið um 1,9% eða nokkru hærri en að meðaltalið.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu IFS Greiningar um fasteignir sem ber heitið; Er steinsteypa besta fjárfestingin?

Höfundar skýrslunnar segja raunávöxtunina ekki vera hærri en raun ber vitni þrátt fyrir að gríðarmiklar hækkanir hafi verið á fasteignaverði síðastliðin 5 ár.

Á tímabilinu sem er skoðað hefur meðal raunverðshækkun yfir lengri tíma verið mest 3,5% en minnst 0%. Raunávöxtunin var áberandi hæst seinni hluta áttunda áratugarins og á byrjun þess níunda

Skýrsluhöfundar segja að rekja megi ástæðuna til tveggja þátta.

Annars vegar sé um að ræða fremur stutt tímabil sem raunávöxtunin er mæld eða um 10 til 15 ár.

Hins vegar að á þessum tíma var svokölluð eftirstríðs ára kynslóð að kaupa sína fyrstu íbúð sem setti mikinn þrýsting á íbúðaverð.

Þá segir í skýrslunni að mikil raunlækkun fasteignaverðs á miðjum níunda áratugnum dró svo úr raunávöxtun úr um 2,0 til 3,0% niður í 0,7% á þeim tíunda. Mikil raunhækkun fasteignaverðs á síðustu 10 árum hefur dregið raunávöxtunina svo aftur upp í um 2,0% til 2,5%. Yfir allt tímabilið er þó raunávöxtunin ekki hærri en 1,6% eins og greint var frá að framan.

Viðhald og gæðaleiðrétting

Þá er tekið fram að þótt raunávöxtun á húsnæði hafi mælst um 1,6% að meðaltali á ári, þá er ekki tekið tillit til viðhaldskostnaðar, opinberra gjalda og hugsanlega aukinna gæða fasteigna með tíma.

Opinber gjöld af íbúðarhúsnæði eru tæplega hálft prósent í dag.

Skýrsluhöfundar taka fram að viðhaldskostnaður getur verið nokkuð breytilegur en ef gert er ráð fyrir að afskriftartími húsnæðis sé um 100 ár að þá er ekki óeðlilegt að gera ráð fyrir að viðhaldskostnaður nemi um 1% af fasteignaverði á ári.