IFS Greining hefur gefið út virðismat fyrir Fjarskipti hf., sem rekur Vodafone hér á landi, og metur sannvirðisgengi hlutabréfanna á 47,6 krónur á hlut. Núverandi gengi bréfa félagsins er 42,1 krónur á hlut í kauphöllinni, og er virðismat IFS Greiningar því 13% hærra.

IFS Greining hækkar mat sitt á félaginu um 27% frá fyrra verðmati í maí síðastliðnum þegar hluturinn var metinn á 37,4 krónur. Segir í verðmatinu að þar komi saman tveir megináhrifaþættir á sama tíma.

„Mikið hefur að segja að ávöxtunarkrafan til bréfanna hefur lækkað um 70 punkta vegna breytinga í markaðsviðmiðum. Að óbreyttri kröfu væri matsgengi okkar 42,6 kr., 14% hærra en síðast. Hinn hluti hækkunarinnar liggur í rekstrarforsendum. Við lækkum m.a. KSV eilítið frá fyrra mati vegna nýútgefinna upplýsinga frá félaginu um ætluð rekstraráhrif samstarfs við Nova um farsímakerfi og breytum einnig fjárfestingaspá í ljósi upplýsinga frá félaginu. Mælum við með því að fjárfestar kaupi bréfin m.v. markaðsgengið 42,2 en markgengi til 12 mánaða m.v. kröfu eiginfjár er 53,4 kr.,“ segir í verðmatinu.

Arðsemisaukning líkleg til að halda sér

Þá kemur fram að félagið auki nú jafnt og þétt tiltrú manna á að arðsemisaukningin sem náðst hefur á umliðnum misserum sé líkleg til að halda sér, ef óvænt áföll af stærri gerðinni komi ekki upp og með núverandi eigendur og stjórnendur við stýrið.

„Rekstur Fjarskipta þróaðist með jákvæðum hætti á síðasta ári og þetta ár sýnir rekstur af svipuðum meiði. Eftirtektarverðast er þegar litið er til síðustu fimm ára hvernig KSV hefur lækkað sem hlutfall af sölu, úr rúmlega 60% 2010 í 52,5% í fyrra. Þarna hjálpar til jöfnun lúkningargjalda síðustu misserin en það skýrir ekki nema hluta sögunnar. Annar rekstrarkostnaður hefur hinsvegar hækkað sem hlutfall af sölu á þessu tímabili, úr 30,5% í 34%. Nettóniðurstaðan er sú að EBITDA% hefur hækkað úr 20,6% árið 2010 í 23,4% á liðnu ári,“ segir jafnframt.

IFS Greining gerir í mati sínu ráð fyrir að félagið hækki EBITDA-hlutfall sitt í 24,7% á þessu ári og nái að bæta það sígandi í 26,4% á næstu tíu árum. „En það er auðvitað langur tími í viðskiptum,“ segir í verðmatinu.