Ljóst er að miklar erlendar skuldir munu kosta miklar fórnir þar sem að afgangur af vöruskiptum þarf að vera verulegur til að greiða niður erlendar skuldir.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu IFS Greiningar um efnahagsmál. IFS segir aukinn afgang af vöruskiptum geta orðið með tvennum hætti, með auknum útflutningi eða samdrætti í innflutningi og einkaneyslu eða hvortveggja. Afleiðingar hárrar skuldastöðu verði því að gengið mun vera lágt og lífskjör lakari.

„Í þessu samhengi skiptir máli hversu hagkvæmar fjárfestingar Íslendinga erlendis hafa verið og hvaða arðsemi þær skila,“ segir í skýrslu IFS.

„Eftir því sem arðsemi og verðmæti erlendar fjárfestingar er meira fæst meira upp í erlendar skuldir og vaxtagreiðslur. Þróun alþjóðlegra efnahagsmála og erlendra eignamarkaða getur því skipt nokkru máli og haft töluverð áhrif á lífskjör hér á landi.“

IFS segir að enn ríki nokkur óvissa um hver raunveruleg skuldastaða þjóðarbúsins sé en meirihluti erlendra skulda þjóðarbúsins séu skuldir gömlu bankanna. Hins vegar dyljist engum að erlend skuldastaða íslenska þjóðarbúsins sé slæm.

Þannig vísar IFS í tölur Seðlabankans þar sem fram kom að heildar erlendar skuldir voru 14.322 milljarðar kr. eða um tíföld verg landsframleiðsla (VLF) í lok 2. ársfjórðungs 2009. Erlendar eignir námu 8.388 milljörðum kr. og hrein staða við útlönd því neikvæð upp á 404%.

Mörg lönd hafa hærri skuldastöðu

Þá segir IFS að myndi sé mun betri þegar að skuldir gömlu bankanna eru teknar úr útreikningnum en skuldirnar lækka niður í 3.322 milljarða kr. þegar að skuldir bankanna hafa verið afskrifaðar eða sem nemur 225% af VLF.

„Vissulega telst það mikið en samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðabankanum eru t.a.m. Írland, Bretland og Sviss með hærri skuldastöðu við útlönd,“ segir í skýrslu IFS.

Þá kemur fram að á móti erlendum skuldum eru erlendar eignir sem nema 2.715 milljörðum króna og því er erlend staða þjóðarbúsins því neikvæð um rúmlega 600 milljarða kr. eða um 42% af VLF.

Stór hluti skulda vegna gjaldeyrisforða

Loks kemur fram að stærstur hluti erlendra skulda bæði Seðlabanka og ríkis er vegna gjaldeyrisforða eða um 400 til 500 miljarðar kr. Eftir stendur því 2.800 til 2.900 milljarðar kr. sem eru að stærstum hluta erlendar skuldir fyrirtækja.

„Enn er verið að gera upp ýmis fyrirtæki sem stóðu völtum fótum eftir bankahrunið. Líklegt er að eitthvað af skuldum og eignum þessara fyrirtækja verði afskrifuð á næstunni sem mun bæta skuldastöðuna,“ segir í skýrslu IFS.