Hagvöxtur verður 2,7% hér á landi á þessu ári, 3,1% á því næsta og 3,6% eftir tvö ár. Einkaneysla, fjármunamyndun og útflutningur drífa hagvöxt áfram á næstu tveimur árum, samkvæmt hagspá ráðgjafa- og greiningarfyrirtækisins IFS Greiningar. Í spánni segir m.a. að dregið hafi úr áhættufælni og ástand bankakerfisins í Evrópu lagast síðan fyrirtækið gaf út síðustu spá sína í júní. IFS Greiningar telur líkur á að framkvæmdir við fyrsta áfanga álversins í Helguvík hefjist á næsta ári, sem er fyrr en búist var við.

IFS Greining setur þó þann fyrirvara við hagspánna að utanaðkomandi aðstæður á borð við verra ástand á alþjóðlegum fjármálamörkuðum eða mikil lækkun viðskiptakjara geti komið í veg fyrir að spáin rætist.

Spá 6,75 stýrivöxtum í lok árs 2014

Í hagspánni segir m.a. að fjármunamyndun muni styðja við aukin virðisauka í hagkerfinu sem aftur auki útflutningsverðmæti, kaupmátt, einkaneyslu og innflutning. Samneysla taki ekki miklum breytingum. Á móti hafi hærra raungengi dregið úr vöruskiptaafgangi og framlagi utanríkisviðskipta til hagvaxtar sökum minni vaxtar útflutnings en innflutnings. IFS Greining bendir reyndar á að mikil óvissa sé um gengisþróun krónunnar. IFS greining telur hana þó ofmetna til skemmri tíma vegna haftanna sem verja hana falli en vanmetna til lengri tíma litið m.v. ýmissa mælikvarða sem ræddir verða í köflunum um þjóðartekjur og krónuna.

Hvað þróun stýrivaxta snertir telur IFS Greining stýrivextir verða hækkaða samhliða aukinni verðbólgu og aukinni framleiðsluspennu. Gert er ráð fyrir 25 punkta hækkun vaxta fram að áramótum, 50 punkta hækkun á næsta ári og 25 punkta hækkun til viðbótar árið 2014. Samkvæmt því munu stýrivextir fara úr 5,75% í 7,75%.